Start/stop búnaður í bílum

Í nýlegum og nýrri bílum er oft svokallaður start/stop búnaður eða stop/start búnaður sem sjálfkrafa drepur á vélinni og startar henni aftur til að draga úr eldsneytisnotkun og útblæstri skaðlegra efna. Algengast er að fólk taki eftir þessum búnaði þegar það er stopp á ljósum eða miklum umferðarhnútum. Sparnaður við slíkan búnað er talinn vera 3-10% á eldsneyti og útblæstri.

Í sjálfskiptum bílum gerist þetta sjálfkrafa þegar bíll stöðvast og fótbremsu er haldið niðri. Í beinskiptum bílum þarf að stíga á bremsu og kúplingu, taka úr gír og sleppa kúplingu til að vélin drepi á sér. Vélin drepur ekki á sér þegar bíllinn er á hreyfingu. Þega kúplingu er stigið niður aftur startar bíllinn sér sjálfkrafa aftur. Vélin getur startað sér sjálfkrafa aftur líka ef mikið álag er á rafkerfi eins og loftræsting er hátt stillt.

Ef rafgeymir er lélegur sér tölvan um að slökkva á þessu kerfi og er oft fyrsta vísbending þess að skipta þurfi um rafgeymi.

ATH: Sérstakan start/stop rafgeymi þarf til að þola álagið sem fylgir því að drepa oft á og starta vélinni.

Tvær tegundir start/stop rafgeyma hafa öllu jafna verið settar í þess lags bíla, þurrgeymi AGM (Absorbed Glass Mat) og sýrugeymi EFB (Enhanced Flooded Battery). Best er að fylgja því sem framleiðandi hefur sett í upprunalega hvort sem það er AGM eða EFB. Þessar tvær tegundir eru gerðar fyrir álagið sem rafgeymir þarf að þola við að starta vélinni oft.

Yfirleitt er hægt að slökkva á þessu kerfi með takka eða inn í tölvukerfi bílsins ef fólki finnst þetta hvimleitt.